Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 856. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1634  —  856. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.


Flm.: Kristján L. Möller.



1. gr.

    20. gr. laganna orðast svo:
    Allir þeir sem fá úthlutað aflaheimildum samkvæmt lögum þessum, eða landa afla fari stjórn veiða fram með öðrum hætti en með úthlutun aflamarks, skulu greiða veiðigjöld svo sem í lögum um veiðigjöld greinir.

2. gr.

    21., 22., 23. og 23. gr. a laganna falla brott.

3. gr.

    Í stað orðanna „1. september 2012“ í 2. málsl. ákvæðis til bráðabirgða V í lögunum kemur: 1. september 2013.

4. gr.

    Í stað orðanna „og 2011/2012“ í ákvæði til bráðabirgða VII í lögunum kemur: 2011/2012 og 2012/2013.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða VIII í lögunum:
     a.      Í stað orðanna „og 2011/2012“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: 2011/2012 og 2012/2013.
     b.      Í stað orðanna „Fiskveiðiárið 2011/2012“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: Á fiskveiðiárunum 2011/2012 og 2012/2013.

6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða IX í lögunum:
     a.      Í stað orðanna „Á fiskveiðiárinu 2011/2012“ í 2. og 3. mgr. kemur: Á fiskveiðiárunum 2011/2012 og 2012/2013.
     b.      4. mgr. fellur brott.

7. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða X í lögunum orðast svo:
    Þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. 8. gr. laganna skulu frádráttarliðir samkvæmt þeirri málsgrein eins og þeir voru fyrir gildistöku 3. gr. laga nr. 70/2011 koma til frádráttar að 1/ 5 hluta frá leyfðum heildarafla á fiskveiðiárinu 2012/2013. Skal frádráttarhlutfall skv. 3. mgr. 8. gr. laganna á því fiskveiðiári aðeins koma til frádráttar svo nemi 4/ 5 hlutum þess. Skal aflamagni samkvæmt þessari málsgrein ráðstafað skv. 5. og 6. mgr. 8. gr. laganna.

8. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða XI í lögunum:
     a.      Í stað orðanna „á árinu 2012“ í 1. málsl. kemur: á árunum 2012 og 2013.
     b.      Á eftir orðunum „á árinu 2012“ í 2. málsl. kemur: og 2013.

9. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Þetta frumvarp er lagt fram samkvæmt samkomulagi allra fulltrúa í atvinnuveganefnd. Frumvarpið felur í sér tillögu um að fiskveiðiárið 2012/2013 lúti stjórn fiskveiða sem næst sömu reglum og giltu fiskveiðiárið 2011/2012, að því frágreindu að gert er ráð fyrir því að um veiðigjald muni fara samkvæmt sérlögum en ekki gildandi lögum um stjórn fiskveiða (sjá 658. mál, veiðigjöld).

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. og 2. gr.


    Hér er lagt til að ákvæði laga um stjórn fiskveiða sem varða veiðigjöld verði felld brott en þess í stað komi einföld tilvísun til laga um veiðigjöld, sbr. 658. mál.

Um 3.–6. gr.


    Greinarnar þarfnast ekki skýringar.

Um 7. gr.


    Með ákvæðum 3. gr. laga nr. 70/2011, sem breyttu 3. mgr. 8. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, var kveðið á um ákveðna aðferð til að jafna milli tegunda framlagi í svonefnda „samfélagspotta“ með því að skerða aflamark allra útgerða um allt að 5,3%. Í skýringum við álit meiri hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, sem færði út ákvæði frumvarpsins að þessu leyti, sagði að þetta væri gert til að tryggja jafnræði með handhöfum aflahlutdeilda. Eftir að ráðstafað hefði verið í pottana því sem með þessu kæmi inn af þorski, ýsu, ufsa og steinbít yrði aflamagni í öðrum tegundum skipt í þessar tegundir eins og mögulegt væri (til ráðstöfunar í pottana). Það yrði gert á sérstökum skiptimarkaði (þskj. 1692, 139. löggjafarþing). Þessi ákvæði um skerðingu (frádrátt) aflamarks komu þó ekki nema að hluta til framkvæmdar á yfirstandandi fiskveiðiári 2011/2012, enda var í bráðabirgðaákvæði við lög nr. 70/2011 mælt fyrir um að eldri regla um frádrátt aflaheimilda (í botnfisktegundunum fjórum) skyldi gilda að ¾ hlutum, en hin nýja regla að ¼ hluta.
    Með þessari grein frumvarpsins er lagt til að hin eldri regla verði látin gilda að 1/ 5 á móti hinni nýju reglu á komandi fiskveiðiári 2012/2013.

Um 8. og 9. gr.


    Greinarnar þarfnast ekki skýringar.